5. bekkur ferðaðist um Suðursveit

14. sep. 2022

Í síðustu viku fóru 5. bekkingar í hefðbundna námsferð í Suðursveit.  Þessi ferð er alltaf skemmtileg og margt að skoða og fræðast um. Byrjað er á að fara inn að Felli og þaðan er gengið meðfram fjallinu að Mjósundará. Þar þarf að fara yfir ána sem er ekki alltaf auðvelt en allir komust yfir á endanum. Farið er í Brúsahelli og þar er sögð sagan af kettinum víðförla. Síðan var farið inn að Fellsárfossi áður en haldið var til baka skelltu nokkrir vaskir krakkar sér til sunds. Í þessari ferð þarf að finna plöntur, skoða smádýr og horfa eftir fuglum auk þess sem krakkarnir læra nokkur örnefni og nöfn á bæjum. 

Gist var í Hrollaugsstöðum og daginn eftir var farið út að Hala þar sem Þorbjörg tók á móti nemendum og fræddi þá um lífið í gamladaga og um rithöfundinn Þórberg Þóraðarson. Ferðin endaði svo í hlöðunni á Hala þar sem grillaðar voru pylsur og farið í spurningakeppni.