Erasmus +

Grunnskóli Hornafjarða ásamt fimm öðrum skólum í Evrópu vinna saman að verkefninu "tell me where you live, and I´ll tell you what you eat".

Nú er Grunnskóli Hornafjarðar að stíga lokaskrefin í evrópuverkefni Erasmus + en undanfarin tvö ár hefur skólinn unnið í samvinnu við fimm önnur Evrópulönd að þessu verkefni. Undirrituð hefur verið verkefnisstjóri að þessu hér á Höfn. Með mér hafa starfað Þórdís Þórsdottir og Lena Hrönn Marteinsdóttir með dyggri aðstoð Eyglóar Illugadóttur.

Verkefnið gekk út að kynna staðinn / sýsluna okkar en einnig matarmenningu okkar. Við höfum staðið okkur nokkuð vel. Menningarmismunur er þó á milli okkar sem stundum er erfitt að skilja. Nemendur í Heppuskóla fóru til Póllands í spríl s.l. en fyrir ári síðan fóru nemendur til Þýskalands.

Það er mikið tækifæri fyrir okkur að fá að ferðast með nemendur til annarra landa og leyfa þeim að upplifa aðrar aðstæður það er í senn þroskandi og skapandi. Gerir nemendur okkar færari í samskiptum á milli þjóða. Það er líka þroskandi að vera inni á öðrum heimilum og upplifa heimilisaðstæður og ólíka siði. En sinn er siður í landi hverju.

Það hefur verið mér sönn ánægja að gefa nemendum þetta tækifæri en sjálf hef ég fengið að ferðast til allra samstarfslandanna á þessum tveimur árum, skoðað skóla og aðstæður kennara í þessum löndum. Það er mjög fræðandi og verð ég að segja að á Hornafirði búum við vel að nemendum og kennurum. Þeir kennarar sem heimsóttu okkur frá öðrum skólum hafa verið mjög hissa yfir þeim góða aðbúnaði sem nemendur hafa hér. Íþróttir, verkgreinar og tækifæri til að vinna með tölvur og tæki sem ekki er til staðar í þeirra skólum. Einna helst eru Finnar líkir okkur og skólakerfið ekki ósvipað með áherslu á list og verkgreinar.  

Út úr verkefninu er komin vefsíða sem nemendur og kennarar hafa unnið. Hér hjá mér gerði ég nemendur ábyrga fyrir afrakstrinum á síðunni en hef nú samt setið og grautað í þessu sjálf. En kennarar í öðrum Evrópulöndum hafa algerlega unnið síðurnar sjálfir. Sem mér finnst ekki góður siður því þetta á jú að vera verk nemenda. Síðan er að koma út matreiðslubók með uppskriftum sem nemendur völdu sem þeim fannst einkenna sitt svæði.

Bókina verður hægt að nálgast í Heppuskóla með haustinu. Nemendur fá ókeypis eintak en aðrir geta keypt eintök meðan eitthvað er til á 3000 kr. (sem er til að borga flutningskostnaðinn)

Heimasvæðið verkefnisins er http://www.erasmustellme.com/