Oddur og Siggi

Leiksýning í boði Þjóðleikhússins fyrir 5. - 7. bekk

11. apr. 2018

Í dag var nemendum í 5. - 7. bekk boðið á frábæra sýningu í Sindrabæ á vegum Þjóðleikhússins. Það var sýningin Oddur og Siggi sem fjallar um vináttu Odds og Sigga á skemmtilegan og persónulegan hátt en líka um vináttu og samskipti almennt. Á sýningunni voru líka nemendur í 5. - 7. bekk frá Djúpavogi.

Á vef Þjóðleikhússins segir m.a. "Oddur og Siggi hafa verið bestu vinir í 10 ár og bjóða okkur í veislu þar sem þeir fagna áratuga vinskap sínum og skemmta okkur eins og þeim einum er lagið. Þeir rifja upp ýmislegt úr sinni vinskapartíð. 

Grunnskólaárin eiga að vera skemmtilegur tími, ekki satt? En það getur orðið flókið að eiga vini. Stundum verulega flókið. Þá getur verið gott að búa sér til sinn eigin draumaheim, til að komast burt úr veruleikanum. En maður getur víst ekki alltaf verið þar, eða hvað?
Oddur og Siggi er skemmtileg og hjartnæm sýning, sem getur aukið meðlíðan og skilning, þar sem er fjallað af einlægni og húmor um flókin samskipti í heimi skólabarna."

Grunnskóli Hornafjarðar þakkar fyrir frábæra sýningu.